Þann 24. apríl nk. er áætluð brottför til Kaupmannahafnar en þaðan er ætlunin að fljúga til Bali í gegnum Bangkok þann 25. apríl. Þar munu ferðalangar njóta lífsins lystisemda og sækja að auki heimsráðstefnu í jarðhitamálum, World Geothermal Congress frá 25.-30. apríl. Frá Bali skal haldið í maíbyrjun og flogið til Nepal þar sem ætlunin er að eyða þremur góðum vikum, þar af tveimur í rölti um Himalayafjöllin með viðkomu í grunnbúðum Everest og skokki á Kala Pathar (5550 m). Loks mun ferðafélagið taka nokkra daga í Bangkok og láta þreytuna líða úr skrokkum með thai-mat og nuddi. Áætluð heimkoma er í júníbyrjun, þegar sumarið hefur náð fótfestu á Íslandi.