Friday, April 23, 2010

Ferðafélagið heilsar frá Kaupmannahöfn!

Þau gleðitíðindi berast nú frá Kóngsins Köben að ferðafélagið er mætt eftir langan dag og langa nótt.

Eftir að hafa beðið í startholunum eftir því að halda til Keflavíkur kom það á daginn, eða í þessu tilviki nóttina, að flugi var frestað.  Raunar með svo dramatískum hætti að allar upplýsingar voru teknar út og í stað komu þau skilaboð að upplýsingar myndu berast kl. 9 morguninn eftir - og því fátt annað í stöðunni en að leggja sig.

Kl. 7 hrökk húsfreyja upp með andfælum og var orðin heldur stressuð hvernig þetta alltsaman myndi fara, en fljótlega kom í ljós hvað biði ferðafélaganna: Rúta frá BSÍ kl.11! 

Við kynnum til sögunnar samferðafólk:
Leiksviðið er hefðbundin rúta, ekkert klósett, við sitjum frekar aftarlega, sem eftirá að hyggja var algjört glapræði
Eldri hjón, sem ekki voru skráð í flug - nokkuð stressuð
Listaspírur á leið til Berlínar
Sigrún Eðvalds á leið í óperuna í Kbh
Félagarnir úr MBA-náminu með Eyjólf "Jolly" Sverrisson í broddi fylkingar

Rútuferð fyrir sterkar taugar

Félagarnir úr MBA-náminu voru fyrri til að framkvæma hugmynd Önnu Pálu um unglingafyller aftast í rútunni og hrundu félagarnir í það með slíkum krafti að annað eins hefur vart sést.  Af þessum sökum þurfti að stoppa ansi reglulega á leiðinni svo þeir gætu pissað bjórnum, hvítvíninu og skotunum.

Eftir fimm og hálfs tíma ferðalag var þolinmæðin svo á þrotum um svipað leyti og við renndum í hlað á troðfullum Akureyrarflugvelli. Við flugum frá Akureyri kl. 18 með öskuskýið á hælunum og auðvitað umkringd MBA-félögunum sem skutu korktöppum hver í annan þegar vélin var komin í loftið.

Ferðalangar voru að vonum frelsinu fegnir þegar þeir horfðu á eftir samferðamönnunum áfram til Berlínar en okkar beið bara lestin til pabba og bræðra, og þar erum við nú þreytt og sátt og óskum ferðalögum morgundagsins góðrar ferðar, hvort sem er til Bangkok og Bali eða Egilsstaða. Við ætlum hinsvegar að hvíla okkur á ferðalögum og njóta vorregnsins í Kaupmannahöfn fram á sunnudag. 

Þreyttir en sáttir ferðalangar í rútu hlusta saman á nýju Seabear-plötuna og hækka krúttstuðul sinn umtalsvert

4 comments:

Dagga said...

Like frá Daríunni!

Knús.is! - DH

eva ólafs~ said...

Ég fékk næstum tár í augun við að lesa þetta :)
Verð svo sannarlega með ykkur skötuhjúum í huga í gegn um þetta ferðalag!

Steinunn said...

Váá... MBA liðið hefur náð að slá út litríka Breezer flíspeysuliðið. En það var ekki að heyra annað í fréttunum en fólk væri almennt í stuði með að fara til Akureyrar, bara alveg ægilega mikið fjör. Kannski bara allir viðmælendur búnir að fá sér hefðbundinn Leifsstöðvarsjúss á BSÍ...?

Ánægjulegt að þið séuð komin Köben, meira svona!

Sandra said...

þessir gaurar gengu töluvert lengra en hinn hefðbundni leifsstöðvarsjúss leggur upp með, þvílíkt ömurlegir náungar... Dæmi um djók:
"Ertu ættaður þaðan?" "Nei, mömmu minni var nauðgað þar og ég kom undir, HAHAHAHAHAHA!"
Semsagt, nokkuð átakanlegt ferðalag og mikið er nú gott að vera komin til köben, einsog alltaf.
hér skín sól og ég er umkringd pabba og bræðrum, like á það!

Free counter and web stats