Monday, April 19, 2010

Rússíbani í Reykjavík

Hver hefði trúað því að það að komast milli Reykjavíkur og gömlu herranna í Kaupmannahöfn gæti verið svona mikil rússíbanareið?

Við skötuhjú áttum bókað flug til Köben kl. 16 í gær. Áður en til þess kom var þó bæði búið að aflýsa fluginu og bjóða okkur að fljúga til Þrándheims... Þrándheims? Eftir 10 sekúndna umhugsun komumst við þó að því að þar værum við líklega töluvert verr stödd en víðast hvar annar staðar. Og bókuðum flug til Köben með morgunfluginu í dag.

Til kl. 4 í nótt vorum við á leið til Köben með flugi kl. 7. Þá var hinsvegar tímasetningunni breytt til kl 10. Kl. 7 var svo fluginu svo breytt í flug til Gautaborgar.

Þó Gautaborg hafi vissulega freistað var niðurstaðan þó enn sú að hér erum við betur stödd en þar. Og því erum við enn hér á Ljósvallagötunni í ágætu yfirlæti, kettinum Loga til mikillar gleði.

Það sem okkar bíður nú er flug til Kaupmannahafnar (mögulega) kl. 7 (mögulega) í fyrramálið... Auðvitað erum við svoddan bjartsýnisfólk og stefnum því fullum fetum á að lenda í Köben í hádeginu á morgun.

Þangað til ætlum við að sofa, og mögulega kíkja á þetta blessaða gos sem veldur svo miklum usla hjá okkur og hinum milljónunum, og biðja um frið.

1 comment:

Eva Ólafs~ said...

Ég er viss um að þetta veit á gott ferðalag :)

Free counter and web stats